Thursday, November 29, 2007

Fyrr en dagur fagur rann

Það líður að lokum síðustu kennsluviku í félagsvísindadeild og búið að klappa kennurum lof í lófa í lok kennslustunda af því tilefni. En um leið og kennslu lýkur hefst vinna. Kapphlaupið við klukkuna til að klára þá vinnu sem skila verður í lok annarinnar. Á þessu stigi er það ferilmappan og upplýsingatæknin, en þetta tvennt getur farið saman. Spurning um að ná utan um það mál.

Annars fjallaði kennslufræðin í gær um námsstíl. Það kom fram sem flestir telja sig eflaust vita að sá háttur sem hafður er á við að læra er afstæður við hvern einstakling fyrir sig. Á meðan einn getur einungis lært við skæra birtu líður öðrum óþægilega nema að hafa dempaða lýsingu í námsrýminu. Einn hlustar við tónlist og annar í algjörri þögn og þar fram eftir götunum. Það sem leitar mest á hugann eftir að allt rykið er sest sem þyrlaðist upp við að allir nemendur lýstu sínum námsstíl varðar þá staðreynd að flestir telji sig eflaust vita að námsstíll sé einstaklingsbundinn. Ef svo er, hvernig má þá vera að skólastofur skuli enn vera með því sniði sem raun ber vitni. Mér dettur í hug í þessu sambandi stofa 103 í Lögbergi. Þvílíkt rými, maður lifandi. Bláhvít flúrlýsingin úr lofti, glansandi borðaraðirnar þvert yfir stofuna, gamlar ljósmyndir af persónum sem koma væntanlega við sögu skólans en fæstir bera kennsl á og ekkert sem flokkast getur undir að koma til móts við hið persónulega í nemandanum. Vélrænt umhverfi til fulls. Bert. Tómt. Kalt. Stelur auk þess hljóðinu einhvers staðar í tóminu á leið sinni milli nemenda og kennara. Ætli þetta virki vel í lögfræðinámi?

No comments: